═b˙ar

Svalbar­shreppur

  Af íþróttum og garpsskap Holtunga Einhvern tímann á árunum þegar ég var skólastjóri á Svalbarði (1992-1998) sagði Árni frændi mér eftirfarandi sögur.

Samantekt frß Ëttari Einarssyni

 

Af íþróttum og garpsskap Holtunga

Einhvern tímann á árunum þegar ég var skólastjóri á Svalbarði (1992-1998) sagði Árni frændi mér eftirfarandi sögur. Það var ekki vani þeirra bræðra að stæra sig eða segja af sér hetjusögur en ég held að Árni hafi verið búinn að hugsa sér að það væri ekki rétt að hann færi með þessar frásögur með sér í gröfna og valið mig sem áheyranda af því að hann vissi að ég var að skrá minningabrot sem við mamma tíndum saman og eru varðveitt í bók sem er aðeins til í einu eintaki og geymd í sumarhúsinu í Holti og við köllum “Heima í Holti”. Frásagnirnar yrðu þá líklega skráðar þar og varðveittar yngri kynslóðum til fróðleiks og skemmtunar. Þess vegna eru þær hér.

                                                                               Óttar Einarsson (2008)

Holt um 1950

 

 

 

Glímueinvígið á Eiðum

Veturinn 1930-31 stunduðu þeir Árni og Þórarinn Kristjánssynir nám við Alþýðuskólann á Eiðum. Árni var þá 18 ára en Þórarinn stóð á tvítugu. Þórarinn var glæsimenni, hávaxinn á þeirrar tíðar mælikvarða, herðabreiður, liðlegur og mjúkur í hreyfingum. Hann var íþróttamaður góður og drengilegur í allri framgöngu, vinsæll og dáður af skólasystkinum og samferðafólki, þá eins og síðar.

Nú gerist það að Laugaskóli kemur í vinaheimsókn til Eiðamanna og er efnt til keppni í ýmsum íþróttum. Veitti ýmsum betur og var mikill hugur í þessu djarfa æskufólki að standa sig sem best fyrir skólann sinn. Hápunktur kappleikanna var bændaglíma þar sem bestu glímumenn skólanna leiddu saman hesta sína. Glímt var með sniði bændaglímu svonefndrar. Skipt var í tvö lið með jafnmörgum liðsmönnum og sá glímumaður sem féll var “úr” sem kallað var. Glíma menn nú af miklu kappi og féll hver um annan þveran uns þar kom í glímunni að bændurnir (liðsstjórarnir) stóðu einir eftir en það voru þeir Bragi Sigurjónsson[1] fyrir Laugamenn og Þórarinn Kristjánsson fyrir Eiðamenn. Taka þeir nú saman og glíma lengi og vasklega en hvorugum tókst þó að knésetja hinn. Var glíman loks stöðvuð og skipaður dómari sem fékk vald til þess að skera úr hvor glímumannanna teldist hafa unnið. Til dómara valdist Þóroddur Guðmundsson[2], frá Sandi í Aðaldal, en hann var þá kennari á Eiðum. Þóroddur kvað síðan upp þann dóm að Bragi væri sigurvegarinn. Varð talsverður kurr og óánægja með þennan úrskurð Þórodds og sagði Árni svo frá að það hefði verið almennt álit viðstaddra að Þórarinn hefði miklu fremur átt að kallast sigurvegari glímunnar vegna drengilegrar framkomu og fallegrar glímu úr því ekki var dæmt jafnglími þar sem hvorugur féll. En ekki dugði að deila við dómarann og urðu Eiðamenn að una úrskurðinum.

                                                                                     Óttar Einarsson (2008)

 

Berserkurinn á Eyjunni

Sumarið 1930 var efnt til hátíðarhalda vítt um land vegna 1000 ára afmælis alþingis á Íslandi. Þá stofnuðu Langnesingar og Þistlar til samkomu á svokallaðri Eyju sem er slétt og vallgróið svæði vestan við Hafralónsárbrú í Þistilfirði og dreif þar að múg og margmenni. Nú gerist það að Húsvíkingur nokkur fer mikinn og býður mönnum að þreyta við sig glímu. Urðu einhverjir til að reyna sig við kappann en máttu allir lúta í gras. Þótti mönnum fjandi hart að utansveitarmaður skyldi leika heimamenn svo grátt sem raun bar vitni. Var þá gengið á fund Þórarins í Holti og hann beðinn að lækka rostann í manni þessum. Þórarinn færðist lengi vel undan enda maður friðar, sátta og samlyndis en þar kom að hann lét til leiðast. Nú taka þeir glímutök og viðureignin hefst. Árni í Holti sagði svo frá að ekki hefði liðið nema svona sekúndubrot frá því kapparnir tókust á þar til berserkurinn lá kylliflatur á jörðinni. Hafði hann sig lítt í frammi á samkomunni eftir það en lét sig hverfa í mannfjöldann!

 

                                                                                      Óttar Einarson (2008)

 

                                                 Frásögn Kristdórs Vigfússonar

Skömmu fyrir 1960 unnum við bræður, Óttar og Angantýr, með Kristdóri Vigfússyni frá Kúðá í Þistilfirði[3] við byggingu flugturnsins við Akureyrarflugvöll. Kristdór var góður sögumaður og hafði frá ýmsu að segja og kunni þá list krydda frásögnina og gæða hana lífi. Einhverju sinni barst talið að gömlum dögum heima í Þistilfirði. Hafði Kristdór mörg orð um það hve Þistlar hefðu þá verið góðum íþróttum búnir – og hefðu Holtsbræður þar verið fremstir meðal jafningja. Sagðist Kristdóri svo frá að þeir hefðu verið svo fimir að þeir hefðu verið jafnvígir til gangs hvort sem gengið var á höndum eða með hefðbundnum hætti. Hefði þá verið undir hælinn lagt hvora aðferðina þeir notuðu hverju sinni. Þá hefði Þórarinn verið afburða hástökkvari. Við inntum Kristdór eftir því hve hátt hann héldi að Þórarinn hefði stokkið, hvort hann hefði jafnvel farið yfir 1.90 m?  Kristdór gat ekki leynt hneykslun sinni!

“Hann hefur stokkið svona tvo og hálfan til þrjá metra,” sagði hann.

“Já, en heimsmetið er 1.98 m,” sögðum við.

“Nú,” sagði Kristdór, “og hvað með það?”

                                                                                  

                                                                        Óttar Einarsson (2008)

 

 [1] Bragi Sigurjónsson  f. 9. nóv. 1910, skáld, bankastjóri, alþingismaður og ráðherra. Sonur Sigurjóns Friðjónssonar frá Sandi í Aðaldal.

 

[2]Þóroddur Guðmundsson  f. 18. ág. 1904, d. 13. mars 1983,  kennari og rithöfundur, var sonur Guðmundar Friðjónssonar, skálds á Sandi, bróður Sigurjóns (sbr. neðanmálsgr. 1)

[3]Kristdór, skírður Gamalíel Kristdór, f. 25. mars 1904, var bróðir Ólafar á Syðra-Álandi, Jósefs og Álfheiðar á Þórshöfn, Jóhannesar og Vigdísar á Kúðá, Kristjáns á Raufarhöfn og Bjargar á Akureyri Vigfúsarbarna. Hann, kvæntist húnvetnskri konu, Kristínu Stefánsdóttur. Þau bjuggu fyrst á Þórshöfn en fluttu til Akureyrar árið 1945. Meðal barna  þeirra er Sveinn bakari  í Rvík og Gunnar í Dekkjahöllinni á Akureyri.

 

 

 

 

 

Framsetning efnis

moya - Útgáfa 1.13 2009 - Stefna ehf