Nokkur orð um veðurfar og fleira
Fram undir það síðasta hefur árferðið verið svolítið þreytandi, finnst mörgum.
Í vetur margra mánaða sunnanátt, án þess að vera nokkurn tíma hlý nema í blá lokin 13.-18.apríl þá
komst mælir í 15°, en kólnaði lengi á eftir. Á sauðburðartímanum í vor var kalt og blautt. Einna versta veðrið þann 2.júní (úr dagbók). Allar skepnur hýstar nema 19 lambær á Melatúni og geldfé upp í rétt.
8. júní gerði sunnan vind og var sólskin fram eftir næsta degi, þá líka byrjaði að gróa í úthaga og hélt áfram. Þann 13.júní var að vísu svo leiðinlegt veður að lambfé var enn á ný hýst, víða.
Hvað um það um og upp úr sautjándanum losnuðu menn við féð af gjöf og hurfu ærnar fljótt undan NA þræsingnum. Hvernig sem þær hafa spjarað sig. Ekki getur hafa sprottið mikið á heiðum, fyrr en þá núna í ágúst. Sólarleysið og kuldinn í júlí var þreytandi. Hvergi kom sláandi gras fyrr en í lok mánaðarins en þá kom heyskapartíð, í síðustu vikunni voru 6 dagar þurrir, ekki góðir þurrkar en það er eins og Indriði á Syðri-Brekkum sagði: „í júlí er hægt að þurrka hey, alla daga sem ekki rignir“.
Flestir notuðu þessa umræddu júlídaga og heyjuðu betri
túnin, sumir nánast öll túnin s.b.r. Ytra-Lónsbónda. Veðrið í ágúst, það sem af
er, hefur verið breytilegt, 13.-19. samfelldur þurrkur, stundum svo góður þurrkur að hægt hefði verið að útþurrka hey en
slíkt heyrir nú fortíðinni til.
Ekki er tímabært að finna árinu í ár sæti í röð verstu ára og e.t.v. verður það ekki á þeim enda.
Berum það bara saman við 2011: Þá var eins og nú allt fé í
húsi 9.júní og eins og nú byrjað að heyja í síðustu viku júlí en loka orðin í
Árbók Þingeyjinga um árferðið þá: „ekki í heild verra en það að mikið heyjaðist
og lömb voru vel í meðallagi væn“. Hvernig skildu þau
verða í haust?