Íbúar

Svalbarðshreppur

ÞJÓFALEIT   Fyrir allmörgum árum dvaldi ég við kennslustörf í Ghana í Vestur-Afríku á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og Menntamálaráðuneytisins.

Minningarbrot frá dvöl í Ghana

ÞJÓFALEIT

 

Fyrir allmörgum árum dvaldi ég við kennslustörf í Ghana í Vestur-Afríku á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og Menntamálaráðuneytisins. Ég var ráðinn þangað í eitt ár til að kenna líffræði í menntaskóla auk þess sem ég ferðaðist á milli skóla og kenndi á ýmis kennslutæki sem send höfðu verið til Ghana frá Íslandi. Þetta ár er mér ógleymanlegt og kenndi mér margt. Ég reyndi að upplifa sem mest og kynnast menningu þjóðarinnar á sem flestan hátt. Í Ghana eru 64 þjóðir og jafn mörg tungumál, siðir margir og ýmislegt sem þarf að passa sig á. Ekki má heilsa eða veifa með vinstri hendinni, hún er nefnilega óhrein og ef þú réttir einhverjum eitthvað með henni ertu að sýna vanvirðingu, ekki gott fyrir örvhenta. Ekki má krossleggja hendur eða fætur fyrir framan höfðingja og margt fleira má telja. Þegar maður er í framandi landi verður maður að virða siði fólksins þar til að aðlagast samfélaginu.

 

Eins og ég sagði þá kenndi ég við menntaskóla. Í skólanum voru 1.200 nemendur, allt stúlkur á aldrinum 12 – 24 ára og allar á heimavist. Einu sinni bar það við að talsverðir peningar hurfu á heimavistinni að nóttu til. Úr þessu varð heilmikil mál, margir grunaðir. Ekki var kölluð til lögregla heldur tók skólastýra rannsókn málsins að sér. Fljótlega beindust böndin að 4 stúlkum og þrættu þær allar þrátt fyrir að þjarmað væri talsvert að þeim. Ég hafði spurnir af þessu og fékk að fylgjast með öllu. Skólastýra kallaði til galdramann til að útkljá þetta þjófnaðarmál og þá jókst áhugi minn heldur betur. Galdramaðurinn mætti á tilteknum tíma með alls kyns dót, hann var málaður með hvítum röndum og flekkjum og skreyttur, gamall vingjarnlegur maður. Hann þurfti að fá hvíta lifandi hænu við galdur sinn. Garðyrkjumaður skólans tók að sér að útvega hana en þegar til kom var hænan sem hann útvegaði með svartar fjaðrir og því ekki nothæf. Þess vegna var fengin ný og þá gat athöfnin hafist. Það fyrsta sem galdramaðurinn gerði var að hann fórnaði hænunni á staðnum þar sem þjófaleitin átti að fara fram þannig að svæðið var roðið blóði áður en athöfnin hófst. Að því loknu fékk hann fötu með vatni, fór með einhverja töfraþulu yfir henni, bætti ýmsum hlutum í hana og fór alltaf með töfraþulu eftir hvern hlut. Það sem hann bætti út í vatnið var m.a. fótur af hænunni, börkur af sérstakri trátegund, hár af nautgipum, skeljar, plöntur og fleira. Talsverðan tíma tók að gera þetta galdraseyði. Allt sem bætt hafði verið í vatnið var tekið úr fötunni eftir vissan tíma og líktist þetta bara venjulegu vatni. Mér var leyft að lykta af því en ekki smakka á því, vatnið var lyktarlaust.

 

Nú var komið með stúlkurnar fjórar. Allar réttu þær fram hægri hendurnar og settu þær ofan í fötuna með leginum. Þær þurftu að halda höndunum dálítinn tíma í vatninu og á meðan fór galdramaðurinn með einhverja þulu. Ég var mjög spenntur að vita hvað gerðist og langaði mest að setja hendina á mér í vatnið en var ekki leyft að gera það. Eftir tiltekinn tíma tóku þær hendurnar upp úr fötunni og viti menn, hægri hönd einnar stúlkunnar hafði litast græn, hinar voru með eðlilegan lit. Sú með grænu höndina viðurkenndi strax þjófnaðinn og skilaði peningunum og þar með var málið úr sögunni. Ég hins vegar sat eftir með ótal spurningar, hvernig var þetta hægt? Galdramaðurinn talaði bara zwi og ég var ekki það góður í því tungumáli að ég gæti haldið uppi samræðum og áhugi hjá fólkinu í kringum mig var ekki mikill á forvitni minni. Þetta var eðlilegur hlutur hjá þeim og eru galdramenn mjög oft fengnir til að útkljá hin ýmsu mál. Ég hef oft hugsað út í hvað gerðist, af hverju varð höndin græn og fæ líklegast aldrei svar við því.  Víða í heiminum eru svona galdrar vel þekktir og margir nota þá við hinar ýmsu athafnir.

 

Okkur hættir til að hlæja að þessu í stað þess að virða þetta og reyna að læra eitthvað af þessu. Gætum við ekki sparað heilmikið fyrir réttarkerfið hér á landi ef við flyttum inn einn svona galdramann sem sæi um að finna grunaða þjófa?

 

 

 

Daníel Hansen

 

Framsetning efnis

moya - Útgáfa 1.13 2009 - Stefna ehf