Íbúar

Svalbarðshreppur

,,ÞEGAR ÉG KAUS FRAMSÓKN.“ Alþingiskosningar voru í júníbyrjun 1967. Á Rauðasandi þar sem ég ólst upp að miklu leyti var kjörstaður í gamla

Kosningar, minningabrot frá Daníel

,,ÞEGAR ÉG KAUS FRAMSÓKN.“

Alþingiskosningar voru í júníbyrjun 1967. Á Rauðasandi þar sem ég ólst upp að miklu leyti var kjörstaður í gamla íbúðarhúsinu í Saurbæ sem þá var í eyði. Í kjörstjórn voru miklir heiðursmenn, Ívar Ívarsson í Kirkjuhvammi, Ívar Halldórsson á Melanesi og Tryggvi Eyjólfsson á Lambavatni sem ég ólst upp hjá. Það var nú ekki búið á mörgum bæjum þetta árið því bæði Saurbær og Stakkar höfðu farið í eyði árið áður. Var því búið á Lambavatni, Gröf, Kirkjuhvammi, Móbergi og Melanesi.

Tryggvi frændi minn fór inn í Saurbæ áður en kjörstaður opnaði en kom seinni part dagsins og sótti okkur út að Lambavatni og tók Lóu og Valda í Gröf einnig með sér á kjörstað.  Í Saurbæ voru því allir íbúar Rauðasands saman komnir þennan eftirmiðdag nema Móbergsfólkið en það var að bera áburð á Stakkatúnið sem það nýtti til slægna þar sem enginn bjó á Stökkum. Konurnar höfðu komið með kaffi og meðlæti og sátu allir sunnan við íbúðarhúsið í sólskininu en hlýrra var úti en inni í óhituðu húsinu. Aðeins áttu tveir eftir að kjósa, Jóhanna á Móbergi og Andrés í Kirkjuhvammi og var verið að bíða og sjá hvort Jóhanna ætlaði ekki að kjósa í heimleiðinni en Reynir hafði kosið um morguninn. Þegar Móbergsfólkið var búið að bera á á Stökkum fór það heim og stoppaði ekki í Saurbæ svo auðséð var að Jóhanna ætlaði ekki að kjósa. Þá var Andrés einn eftir. Hann hafði ekki sama þroska og flestir og var ekki læs. Þess vegna hófust umræður um það hver ætti að hjálpa Drésa að kjósa. Þeir vörpuðu því hver á annan Ívararnir og Tryggvi og voru nokkrar umræður um það. Þá segir Ívar á Melanesi: ,,Látum strákinn hjálpa honum, hann er sá eini hér sem er ekki með kosningarétt“ og átti þar við mig. Ég var 11 ára og eini krakkinn á staðnum og vissi lítið um hvað kosningar voru, vissi þó að nokkrir flokkar voru og hafði hver flokkur sinn bókstaf. Ég vissi líka að þeir sem kosnir voru komu í heimsókn á fjögurra ára fresti aðrir en sveitungi okkar Sigurvin Einarsson sem kom á hverju ári á Rauðasand. Þess vegna var mér treyst til að gera það sem Drési bæði mig um. Við fórum því inn í bláu stofuna sem var kjörklefinn og þar tók ég við kjörseðlinum af Drésa og spurði hann hvar ég ætti að krossa við. ,,Krossaðu við Sigurvin“, sagði Drési. Ég sagði að hvergi stæði Sigurvin en hann hlustaði ekki á mig og hálfskammaði mig og sagði: ,,Hvað, getur þú ekki krossað við Sigurvin“? Ég varð nú heldur vandræðalegur og sagði honum að það væru bara bókstafir sem boðið væri upp á að krossa við. Hann bakkaði ekki og varð bara hvassari við mig og talaði hátt og endurtók að ég ætti að krossa við Sigurvin. Ég varð enn vandræðalegri, hélt að allir heyrðu hvað við töluðum um í kjörklefanum en það mátti ekki og þurfti að koma mér úr þessum vandræðum og fór fram og kallaði Ívar á Melanesi á eintal og sagði honum vandræði mín. Hann hló og sagði mér að ég ætti að krossa við B en það væri flokkurinn hans Sigurvins. Ég fór aftir inn og  gerði það samviskusamlega og rétti Drésa seðilinn og hann fór ánægður fram með hann og setti í kjörkassann. Mér fannst mjög eðlilegt að krossa við Sigurvin þar sem hann var sá eini sem ég þekkti og sá eini sem kom reglulega í sveitina og þekkti alla. Við Drési vorum því sammála og vorum báðir ánægðir með okkur. Síðan hef ég ekki kosið Framsókn.

Ég skora á Fanneyju Ásgeirsdóttur að vera með næstu minningabrot.

Framsetning efnis

moya - Útgáfa 1.13 2009 - Stefna ehf