═b˙ar

Svalbar­shreppur

Aldarminning   Einar Kristjánsson. Einar Kristjánsson fæddist á Hermundarfelli í Þistilfirði 26. október árið 1911. Hann var sonur hjónanna Kristjáns

Aldarminning, Einar Kristjßnsson.

Aldarminning   Einar Kristjánsson.
Einar Kristjánsson fæddist á Hermundarfelli í Þistilfirði 26. október árið 1911. Hann var sonur hjónanna Kristjáns Einarssonar frá Garði í Þistilfirði og Guðrúnar Pálsdóttur frá Hermundarfelli. Einar ólst upp á Hermundarfelli yngstur fjögurra alsystkina. Hann gekk í hinn stopula farskóla sveitarinnar sem lauk með svokölluðu fullnaðarprófi en aðrir kostir til menntunar voru ekki fyrir hendi a.m.k. austan heiðar í Norður-Þingeyjarsýslu. Þegar Einar er 12 ára missir hann móður sína. Einar hafði hug á að afla sér menntunar en á því var nánast enginn kostur vegna fátæktar. Þó tókst honum að komast í unglingaskóla í Lundi í Öxarfirði og síðar einn vetur í Reykholti í Borgarfirði og annan á Hvanneyri. Þetta varð hans skólamenntun. Hann varð því sjálfur að bæta því við sem honum fannst á skorta og það gerði hann með þrotlausum lestri bóka, einkum fagurbókmennta.

Einar kvæntist Guðrúnu Kristjánsdóttur frá Holti í Þistilfirði árið 1937. Þau bjuggu fyrst á Hermundarfelli en síðar reistu þau nýbýlið Hagaland og bjuggu þar til 1946 er þau fluttu til Akureyrar þar sem þau bjuggu upp frá því. Þeim varð fimm barna auðið. Einar var lengst af húsvörður við Barnaskóla Akureyrar, vinsæll og vel metinn af samstarfsfólki og nemendum.

Þegar Einar kemur til Akureyrar er hann 35 ára gamall. Eitthvað mun hann hafa fengist við skriftir og ljóðagerð og þá mest „fyrir skúffuna“ eins og sagt er. Hér á Akureyri komst hann fljótlega í kynni við skáldin Rósberg Snædal, Kristján frá Djúpalæk og Heiðrek Guðmundsson og síðar Guðmund Frímann o.fl. Ekki er ólíklegt að samneytið við þessi skáld hafi orðið honum hvatning til þess að sýna hvað í honum bjó og hvers hann var megnugur.

Árið 1952 kemur út fyrsta bók hans, Septemberdagar, sem vakti þó nokkra athygli fyrir það hve fagmannlega var að verki staðið í samþættingu alvöru, kímni og ádeilu. Síðan rekur hver bókin aðra allt til ársins 1985 er síðasta bindi ritsafns hans kom út. Alls urðu bækur Einars 14 að tölu.

En þótt Einar yrði talsvert kunnur fyrir ritverk sín þá varð hann landskunnur sem útvarpsmaður, einkum fyrir þætti sína Mér eru fornu minnin kær, á árabilinu 1980-1990. Þættirnir innihéldu ýmsan þjóðlegan fróðleik og vangaveltur um lífið og tilveruna og voru samkvæmt skoðanakönnunum eitthvert vinsælasta útvarpsefnið í mörg ár. Úrval þáttanna er nú aðgengilegt á bloggsíðu um Einar.

En Einari var fleira til lista lagt. Hann var einstaklega góður hagyrðingur, fundvís á efni og laginn við úrvinnslu. Vísurnar voru jafnan einfaldar og léttar, eins og þær hefðu ort sig sjálfar, og oftast slegið á létta strengi.

Loks er þess að geta að Einar var söngvinn og músíkalskur eins og sagt er. Hann fór ungur að spila á tvöfalda harmoniku og lærði ýmis lög af Guðjóni föðurbróður sínum á Sjóarlandi. Einar lék oft fyrir dansi þar eystra en eftir að hann fluttist til Akureyrar hætti hann því enda átti hann ekkert hljóðfæri.

Hann fékk sér þó síðar píanóharmoniku og píanó sem hann lék á sér og sínum til ánægju. Upp úr 1970 eignast Einar tvöfalda harmoniku og fer að rifja upp gömlu lögin sem hann og Guðjón höfðu leikið forðum. Honum hefur þá sennilega verið orðið ljóst að hér voru á ferðinni menningarverðmæti sem rétt væri að varðveita fyrir komandi kynslóðir. Hann kom sér á framfæri við Svavar Gests og árið 1979 kom út hjá SG-hljómplötum plata með 30 lögum sem fólk í Þistilfirði og víðar hafði dansað eftir allt frá 19. öld og fram undir miðja þá tuttugustu. Plata þessi er ekki lengur fáanleg í verslunum en fjölskylda Einars hefur látið færa efni hennar yfir á geisladisk.

Á ferli sínum öðlaðist Einar margskonar opinberar viðurkenningar. Hann hlaut listamannalaun, fyrst árið 1953 og síðar með hléum einhver ár. Honum var boðið til dvalar í Svíþjóð á vegum sænsku samvinnuhreyfingarinnar vorið 1961, til Rússlands í listamannanefnd haustið 1971 og hlaut verðlaun úr rithöfundasjóði ríkisútvarpsins og viðurkenningu frá Menningarsjóði Akureyrarbæjar svo eitthvað sé nefnt.

Síðast en ekki síst naut hann viðurkenningar fólksins, a.m.k. norðanlands sem vinsæll upplesari eigin verka á árshátíðum og skemmtunum ýmissa félagasamtaka allt frá því að Septemberdagar komu út 1955. Grasrótin kunni að meta hnyttni hans og kímni og hann kunni að sá í jarðveg hennar.

Einar átti heima á Akureyri í hálfa öld. Honum þótti vænt um bæinn og var stoltur af honum. Hann fékk mörg tækifæri til þess að sýna það í verki því að oft var til hans leitað á hátíðis- og tyllidögum og hann beðinn að semja ljóð, leikþátt eða flytja minni bæjarins. Akureyri var bærinn hans og hann var skáld bæjarins. Á Amtsbókasafninu á Akureyri gefur að líta málverk af Akureyrarskáldunum svokölluðu, þeim sem settu svip á bæinn og voru þekkt nöfn í heimi íslenskra bókmennta um og eftir miðja tuttugustu öld. Þeirra á meðal var Einar. Einar lést á Akureyri árið 1996 tæplega 85 ára að aldri. Fjölskylda Einars hefur safnað saman efni um hann og verk hans:

einarkristjansson.wordpress.com

Óttar Einarsson

 

 

 

Framsetning efnis

moya - Útgáfa 1.13 2009 - Stefna ehf